Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Í gær, miðvikudaginn 25.3. svaraði Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra, ítarlegum fyrirspurnum Ástu Möller, þingmanns, um notkun á lyfinu Tysabri hérlendis. MS-sjúklingar hafa kvartað undan seinagangi á Landspítalanum og ýmsu öðru varðandi Tysabriverkefnið, en fátt nýtt kom fram á Alþingi. Ráðherra kvaðst hafa byrjað rannsókn á málinu og ráðuneytið hygðist kynna sér málið. Hann lýsti yfir trausti á sérfræðingum Landspítalans.
Hér á eftir verður birt fyrirspurn Ástu Möller orðrétt og bráðabirgðaútgáfa af umræðunni í heild sinni (þingmenn hafa ekki enn lesið yfir uppskrift ræðna sinna)..
Þeir sem vilja bæði lesa og hlusta eða horfa á umræðuna í heild sinni., sem stóð í tólf og hálfa mínútu, geta smellt á neðangreina tengla:
Öll umræðan – Horfa
Öll umræðan – Hlusta Fyrirspuurn Ástu Möller til heilbrigðisráðherra um notkun lyfsins Tysabri.var svohljóðandi: Frá Ástu Möller.
1. Hve margir MS-sjúklingar eru taldir geta haft gagn af lyfinu Tysabri við sjúkdómi sínum? Hve margir hafa þegar hafið slíka lyfjameðferð og hve margir eru á biðlista eftir henni?
2. Hver er kynja-, aldurs- og landfræðileg skipting þeirra sem hafa þegar fengið lyfið og þeirra sem eru á biðlista?
3. Hvaða ástæður eru fyrir því að MS-sjúklingar, sem talið er að geti haft gagn af lyfinu, hafa ekki hafið meðferð?
4. Hvaða viðmiðanir eru lagðar til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingar fá lyfið Tysabri og hvernig er jafnræði tryggt í vali milli sjúklinga?
5. Hver er árlegur kostnaður við lyfjameðferð með Tysabri í samanburði við önnur viðurkennd lyf við MS-sjúkdómnum?
Umræðan í heild sinni:
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):
Virðulegi forseti. Í umræðum hér í þingsal sl. mánudag um lyfið Tysabri sagði hæstv. heilbrigðisráðherra, með leyfi forseta:
„Mér er gert og ég ætla mér að standa vörð um hagsmuni skattborgarans og um hagsmuni heilbrigðiskerfisins.“
Með spurningu minni hér í dag, hæstv. forseti, horfi ég á málið út frá sjónarhóli sjúklinga, út frá hagsmunum þeirra fyrst og fremst og þörf þeirra til að fá svör við spurningum sem þeir sjálfir eru að velta fyrir sér. Það tel ég vera frumskyldu okkar þingmanna þegar rætt er um þessi mál.
Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur sakað mig um að kasta rýrð á störf heilbrigðisstarfsfólks í umræðu um þessi mál og það er rangt og það er fjarri mér. Við stöndum frammi fyrir því að til er nýtt lyf sem getur skipt sköpum um starfshæfni, líðan og lífsgæði MS-sjúklinga. Eins og er geta ekki allir fengið lyfið. Fyrir því eru gefnar ástæður sem ég inni hér eftir.
Margir MS-sjúklingar bíða í eftirvæntingu eftir því að fá niðurstöðu um hvort og hvenær röðin komi að þeim að fá lyfið. Í sumum tilvikum geta slíkar væntingar verið óraunhæfar. Hlutfallslega fleiri MS-sjúklingar hafa fengið þetta lyf á síðustu mánuðum hér á landi í samanburði við önnur lönd og hafa sumir þeirra lýst undraverðum áhrifum lyfsins á framgang sjúkdómsins. Undirbúningur að notkun lyfsins á Landspítala var vandaður og klínískar leiðbeiningar settar um notkun þess, m.a. til að tryggja jafnræði milli sjúklinga. Með tilkomu þessa lyfs stöndum við frammi fyrir nýjum aðstæðum. Ekki hafa allir fengið lyfið sem hafa fengið vilyrði fyrir því eða hafa væntingar um það. Þetta kallar á forgangsröðun sjúklinga, kannski tímabundið en e.t.v. varanlega. Þess vegna er gagnsæi í ákvarðanatöku um hver fær lyfið mjög mikilvægt. Við þessar aðstæður er eðlilegt að fólk leiti skýringa á biðtíma og geri samanburð á aðstæðum sínum og annarra sem þegar hafa fengið lyfið.
Í bréfi til þingmanna í síðustu viku velti ung kona úti á landi fyrir sér hvort landfræðilegar ástæður væru fyrir því að það hefði dregist fjórum mánuðum lengur að hún fengi lyfið en áætlað var. Aðrir MS-sjúklingar hafa haft samband við mig í sama tilgangi og deilt með mér svörum sem þeir hafa fengið bæði frá fagfólki og öðrum MS-sjúklingum. Þeirra hugrenningar eiga fullt erindi í umræðuna og ég tel rangt að draga úr gildi þeirra.
Af þessum sökum varpa ég fram spurningu til hæstv. heilbrigðisráðherra um lyfið Tysabri:
1. Hve margir MS-sjúklingar eru taldir geta haft gagn af lyfinu Tysabri við sjúkdómi sínum? Hve margir hafa þegar hafið slíka lyfjameðferð og hve margir eru á biðlista eftir henni?
2. Hver er kynja-, aldurs- og landfræðileg skipting þeirra sem hafa þegar fengið lyfið og þeirra sem eru á biðlista?
3. Hvaða ástæður eru fyrir því að MS-sjúklingar, sem talið er að geti haft gagn af lyfinu, hafa ekki hafið meðferð?
4. Hvaða viðmiðanir eru lagðar til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingar fá lyfið Tysabri og hvernig er jafnræði tryggt í vali milli sjúklinga?
5. Hver er árlegur kostnaður við lyfjameðferð með Tysabri í samanburði við önnur viðurkennd lyf við MS-sjúkdómnum?
Heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):
Hæstv. forseti. Það er rétt, sem fram kom hjá hv. þingmanni, að ég sagði hér í umræðu í þinginu um daginn að á mínu ábyrgðarsviði væri að gæta hagsmuna heilbrigðiskerfisins, en hvað er heilbrigðiskerfið? Heilbrigðiskerfið er fyrst og fremst fólk sem sinnir fólki. Að sjálfsögðu viljum við standa eins vel við bakið á þeim sem eru sjúkir og þurfa að leita til heilbrigðisþjónustunnar og nokkur kostur er og að allt sé gert til þess að auðvelda líf þeirra og færa þeim lækningu. Við viljum jafnframt að þeim sem sinna störfum innan heilbrigðisþjónustunnar sé sýnd sanngirni og að þeir sem gagnrýna kerfið geri það af ábyrgð.
Hv. þm. Ásta Möller beinir til mín einum fimm spurningum, ítarlegum spurningum, og ég vil þakka henni fyrir að lyfta þeim hingað inn í þingsalinn því að við erum að fjalla hér um sjúkdóm sem er alvarlegur og sem ber að leita allra leiða til að veita lækningu við. Svarið við yfirgripsmiklum spurningum þingmannsins verður að vera í stikkorðastíl.
45 sjúklingar eru í Tysabri-meðferð samkvæmt þeim upplýsingum sem mér eru veittar. Auk þeirra er hafinn undirbúningur að því að gefa lyfið á Akureyri, það er gefið hér í Reykjavík. Alls eru 50 sjúklingar í Tysabri-meðferð á mismunandi stigi. Enginn getur sagt til um með vissu hversu margir MS-sjúklingar gætu haft gagn af lyfinu enda er það háð læknisfræðilegu mati og kemur strangt til tekið ekki í ljós fyrr en sjúklingurinn er farinn að taka lyfið.
Um skiptingu eftir landsvæðum kemur fram að 5 sjúklingar utan höfuðborgarsvæðisins taka lyfið en þá er á það að líta að margir MS-sjúklingar flytjast til Reykjavíkur eftir greiningu þannig að það er svolítið erfitt að henda reiður á hvernig þessum málum er farið. Meðalaldur þeirra sem hafa byrjað meðferð er 45,5 ár og aldursdreifingin er þannig að 4 eru undir þrítugu, á aldrinum 30–39 ára eru 8 sem taka lyfið, 40–49 ára eru 15 talsins, á aldrinum 50–59 ára eru 14 og 4 eru eldri en sextugt. Af því sem hér hefur verið sagt er ekki hægt að svara því hver landfræðileg skipting þeirra er sem hugsanlega fengju lyfið.
Í upphafi var ákveðið eftir vandlega skoðun færustu sérfræðinga að gefa 50 einstaklingum lyfið Tysabri. Það þýðir að hlutfallslega fá þrisvar til fjórum sinnum fleiri sjúklingar þetta lyf hér á landi en í grannlöndum okkar. Þarna hafa komið fram ýmsar misvísandi tölur inn í hina opinberu umræðu. Ég hef átt fund með forsvarsmönnum MS-félagsins og læknum sem sinna fólki sem er með þennan sjúkdóm og þeir staðhæfa að við gerum að mörgu leyti betur en aðrar þjóðir, eins og ég hef hér vikið að, en við viljum gera eins vel og nokkur kostur er. Þess vegna hef ég óskað eftir því að fá greinargóða skýrslu frá sérfræðingum um stöðu þessara mála.
Meginástæðan fyrir þeirri töf sem varð á lyfjagjöfinni sem vísað hefur verið til er, svo að ég vitni orðrétt til lækningaforstjóra Landspítala, með leyfi forseta:
„Dauðsföll eftir gjöf Tysabri erlendis sem gáfu tilefni til aukinnar varfærni. Af 45 sjúklingum sem hafa fengið lyfið hérlendis hafa þrír þurft að hætta meðferð vegna ofnæmisviðbragða.“
Þá hefur aðstaðan á dagdeild taugalækningadeildar Landspítalans verið nýtt til hins ýtrasta við gjöf á Tysabri og felst í þessu að sú aðstaða mætti vera betri. Þetta er nokkuð sem við þurfum að huga að.
Vegna spurningarinnar um jafnræði skal tekið fram að byggt er á mati færustu sérfræðinga sem við eigum á þessu sviði lækninga og ég verð að segja að mér finnst það vera mjög alvarlegt að fullyrða eða láta í veðri vaka, eins og hv. þingmaður hefur gert, að matið byggist á einhverju öðru en faglegu mati. Það sem stjórnar því hverjir fá meðferðina er læknisfræðilegt mat sérfræðinga auk niðurstaðna úr ákveðnum rannsóknum á sjúklingum.
Ég legg (Forseti hringir.) áherslu á að það er mjög mikilvægt að ræða þessi mál og ef grunur leikur á því að verið sé að mismuna á einhverjum öðrum forsendum en læknisfræðilegum (Forseti hringir.) þarf það að koma inn í umræðuna en það þarf þá að vera byggt á vönduðum rökum og upplýsingum.
Þuríður Backman (Vg):
Hæstv. forseti. Tysabri lyfjameðferðin er við MS-sjúkdómnum og gagnast helst MS-sjúklingum sem hafa ákveðin einkenni, þ.e. fá síendurtekin köst. En það er einnig mikilvægt að taka tillit til aldurs sjúklinganna og það er sérstakt greiningarteymi sem metur þá sjúklinga sem koma til greina fyrir þessa lyfjatöku. Það á aftur á móti ekki að taka tillit til búsetu þeirra sem greinast með þennan sjúkdóm og þurfa meðferð. Allir eiga að eiga jafnt aðgengi og því er mikilvægt að nýta þá aðstöðu sem er á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þar er þekking og þar er tilbúin aðstaða.
Einnig þarf að bæta aðgengi á Landspítalanum svo að hægt sé að taka við fleirum. En það skiptir líka máli að meta það að þetta er dýr meðferð. Hún gagnast ekki öllum. (Forseti hringir.) Það koma fram aukaverkanir og við verðum að treysta því að þeir sérfræðingar sem leggja mat á þessa sjúklinga geri það og (Forseti hringir.) það er vegna þeirra miklu aukaverkana sem koma fram. Það þarf líka að hafa það í huga að það þarf að vera góður tækjabúnaður til þess að taka við þessum einstaklingum.
Siv Friðleifsdóttir (F):
Virðulegur forseti. Það var 29. nóvember 2007 sem varaþingmaður Framsóknarflokksins, Jón Björn Hákonarson, spurði fyrst um notkun lyfsins Tysabri. Hann spurði á þeim tíma hvort það stæði til að hefja notkun á lyfinu hér á landi og ef svo væri hvenær.
Það var svo í janúar 2008 að við hófum að gefa þetta lyf. Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að lyfið gagnast mörgum. En það hentar alls ekki öllum. Ég hef aldrei orðið vör við neitt annað en að það hafi verið notað á faglegum forsendum.
Þess vegna fannst mér mjög sérstakt þegar hv. þm. Ásta Möller fór fram í fjölmiðlum og ýjaði að því að lyfið væri gefið á grundvelli annars en faglegs mats, þ.e. að þeir sem væru betur menntaðir fengju frekar lyfið. En ég heyri að hv. þingmaður fer talsvert varlegar hér í ræðustóli núna.
Ég held að það sé mjög (Forseti hringir.) mikilvægt að grafa ekki undan heilbrigðiskerfinu með svona vangaveltum, að vera með vangaveltur af þessu tagi. Ég get eiginlega fullvissað þingheim um (Forseti hringir.) að það er verið að taka ákvarðanir út frá faglegum forsendum varðandi þetta mál og mörg önnur heilbrigðismál og öll önnur heilbrigðismál.
Fyrirspyrjandi (Ásta Möller) (S):
Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. En ég tek hins vegar eftir því að hann hefur ekki svarað öllum mínum spurningum og vænti þess þá í seinna svari hans varðandi þær spurningar hvaða viðmiðanir eru lagðar til grundvallar þá ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingur fær lyfið og um árlegan kostnað.
Hins vegar er alveg ljóst að hér hefur verið ágætlega og mjög vel staðið að því að innleiða þetta lyf og við höfum verið mjög framarlega í því að gefa sjúklingum með MS kost á því að njóta þess að fá þetta lyf. Hins vegar verð ég að segja það, af því tilefni sem hefur komið fram hjá hæstv. ráðherra, að ég tel enga ástæðu til þess að bera brigður á það sem fólk er að segja sjálft, hvort sem það er tilfinning eða staðreynd. Í þeim tilvikum sem hafa borist á borð okkar þingmanna, meðal annars í pósti sem barst til okkar allra í síðustu viku, eru dregnar fram ákveðnar spurningar um landfræðilega þætti. Ég tel enga ástæðu til að draga í efa orð fólks sem er sérfræðingar í sínum eigin sjúkdómi og umgengst fólk með sama sjúkdóm, eða að umræður þeirra á milli séu talaðar niður. Ég tala hér í umboði þessa fólks. Það hefur mjög margt haft samband við mig eftir viðtalið við mig sem sýnt var á Stöð 2 á laugardaginn var.
Að sama skapi verð ég líka að segja að ég ber fullt traust til heilbrigðisstarfsmanna og að þeir taki ábyrgar ákvarðanir. En ég verð að leggja áherslu á að upplýsingar séu allar uppi á borðinu og að gagnsæi sé í ákvarðanatöku. Fólk er í þeirri aðstöðu að það horfir væntingaraugum á ákveðna meðferð, ef til vill í sumum tilvikum eru þær væntingar ekki réttar og að það hafi ekki möguleika á að fá þetta lyf en þá verða slíkar upplýsingar að liggja á borðinu og ekki má gefa neinar falsvonir í þeim efnum.
Ég vænti þess að hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) muni svara seinni spurningum mínum hér í seinna svari sínu.
Heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):
Hæstv. forseti. Það er rétt að ég átti eftir að svara tveimur spurningum, annarri sem lýtur að jafnræði og hinni sem snýr að kostnaðinum.
Það sem stjórnar því hverjir fá meðferðina er læknisfræðilegt mat sérfræðinga auk niðurstaðna úr ákveðnum rannsóknum á sjúklingnum. Til þess að fá þessa meðferð þarf að uppfylla atriði sem tilgreind eru nákvæmlega í klínískum leiðbeiningum spítalans og byggjast á gagnreyndum rannsóknum. Það er í þessu sem jafnræðið felst.
Hv. þingmaður spurði enn fremur um heildarkostnað vegna lyfsins Tysabri á árinu 2008. Hann var um 82 millj. kr. en það er ríflega tvöfalt eða þrefalt meiri kostnaður en við hefðbundna lyfjagjöf.
Ég ítreka að þetta er mjög alvarlegur sjúkdómur — mér er fullkunnugt um það — og ég vil taka allar ásakanir eða vangaveltur um að ekki sé eðlilega staðið að málum mjög alvarlega. Það geri ég. Ég hef einnig fengið bréf og ábendingar frá fólki í öngum sínum, annað hvort sjálft með þennan sjúkdóm eða á aðstandendur sem eru hrjáðir af honum. Ég hef látið gera á þessu rannsókn og er að ganga úr skugga um hvernig að þessum málum almennt er staðið. Ég ber fullt traust til starfsmanna sjúkrahúsanna í þessu efni. En mér finnst eðlilegt að heilbrigðiskerfinu á þessu sviði sem öðrum sé veitt eðlilegt aðhald og það eiga þingmenn að sjálfsögðu að gera líka. Þegar þeir heyra vangaveltur af þessu tagi þá náttúrlega byrja þeir ekki — eins og ég lít á málin — að kveða sé hljóðs í fjölmiðlum. Þeir byrja á að afla sér upplýsinga. Þeir óska eftir því að málið sé tekið til umfjöllunar í fagnefndum þingsins (Gripið fram í.) og síðan er eðlilegt (Gripið fram í: Svaraðu málefnalega.) að taka málið upp á vettvangi þingsins þegar slíkra upplýsinga hefur verið aflað. Það gerði hv. þm. (Gripið fram í: Svaraðu málefnalega.) Ásta Möller ekki, (Forseti hringir.) því miður.
Umræðu lokið.