Alls hafa rösklega 100 MS-greindir einstaklingar óskað eftir að fá lyfið Tysabri samkvæmt upplýsingum Landspítala Háskólasjúkrahúss. Tæplega 50 MS-sjúklingar bíða svars, en alls fá 53 sjúklingar lyfið núna, 49 á LSH og 4 á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Í skriflegu svari Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, við fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur á Alþingi s.l. miðvikudag kom fram, að taugadeild LSH hafi sótt um meðferð fyrir 56 sjúklinga.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir lagði fram fyrirspurn um notkun Tysabri þ. 4. október s.l., þar sem hún lagði alls 6 spurningar fyrir ráðherra., m.a. um fjölda MS-sjúklinga, sem hefðu fengið lyfið, hve margir hefðu sótt um lyfið, hvers vegna Tysabri væri ekki notað sem lyf nr. 1 í ljósi mikillar virkni þess, hver kostnaður væri af MS-lyfjum, hvort kostnaður ráði vali á lyfjum og loks hvort það sé ekki markmið heilbrigðisyfirvalda, að sjúklingar fái aðgang að bezta mögulega lyfi.

Í svari heilbrigðisráðherra miðvikudaginn 4. nóvember kemur fram, að samtals hafi 53 MS-sjúklingar fengið Tysabri á LSH, fjórir hafi fallið úr hópnum vegna óþols eða mótefnamyndunar, og að auki fái fjórir sjúklingar lyfið á FSA.

Við spurningunni “Hve margir hafa sótt um að fá lyfið?” segir í svarinu “Sótt hefur verið um meðferð fyrir 56 sjúklinga á LSH...” og á FSA hafi verið sótt um Tysabri-meðferð fyrir fjóra MS-sjúklinga, sem allir fái lyfið. Í hádegisfréttum Útvarpsins á föstudaginn s.l. kom fram, að tæplega 50 MS-sjúklingar biðu eftir að komast á Tysabri og því væri ljóst að umsóknir um notkun Tysabri væru mun fleiri en ætla mætti af svari ráðherra eða um 100 talsins. Í svari ráðherra sagði orðrétt: “Sótt hefur verið um meðferð fyrir 56 sjúklinga á LSH...”.

Steinunn Valdís ÓskarsdóttirSkýringin á þessu misræmi virðist helgast af því, að svarið virðist einskorðast við fjölda þeirra Tysabri-umsókna, sem taugadeild LSH hefur sótt um hjá Lyfjadeild sjúkrahússins og spurningu Steinunnar um heildarfjöldann þannig ekki svarað. Svar ráðherra byggir á upplýsingum frá taugadeild LSH.

Varðandi fjölda þeirra, sem nú fá Tysabri-meðferð á LSH og FSA, alls 53 sjúklingar, er vert að nefna, að fyrir meira en einu ári var því yfir lýst, að alls myndu 50 MS-sjúklingar verða komnir á Tysabri um s.l. áramót 2008/2009, þ.e. fyrir röskum 10 mánuðum.

Fulltrúar MS-félagsins fóru í haust á fund Ögmundar Jónassonar, forvera Álfheiðar Ingadóttur í embætti heilbrigðisráðherra, og þar kom fram, að góður vilji er í heilbrigðisráðuneytinu til að grípa til aðgerða.

Í frétt á MS-vefnum um fundinn sagði m.a. “Ljóst væri að hann (ráðherra, innsk.) hygðist ekki sitja við orðin tóm, því þegar hefði verið ákveðið að Sveinn Magnússon, læknir, og Einar Magnússon, lyfjafræðingur, sérfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu, færu m.a. á fund forsvarsmanna taugadeildar LSH, Elíasar Ólafssonar, yfirlæknis, og Hauks Hjaltasonar, umsjónarmanns Tysabri-verkefnisins, strax í þessari viku.

Í svari við spurningunni um hvers vegna Tysabri væri ekki notað sem lyf nr. 1 segir, að ekki hafi verið gerðar samanburðarrannsóknir á Tysabri og eldri lyfjum og Tysabri sé dýrara en önnur MS-lyf. Þá er minnzt á lífshættulega PML-heilabólgu. Alls hafa 24 einstaklingar fengið PML um allan heim frá því lyfið var sett á markað árið 2006. Aðeins 2 einstaklingar hafa dáið vegna PML, en skv. ítrustu varkárniáætlunum er gert ráð fyrir áhættustuðlinum 1:1000. Reyndin er fjarri þeirri áhættu, en um 50 þúsund manns hafa fengið Tysabri.

Fram kemur, að “reynslan af Tysabri virðist góð,” eins og fram kom t.d. í viðhorfskönnun MS-félagsins á meðal Tysabri-þega, sem birt var fyrr á árinu. Þá hefur Sverrir Bergmann, taugasérfræðingur MS-félagsins, John Benedikz, taugafræðingur o.fl. margoft lýst yfir því, að Tysabri sé afburðalyf og skari fram úr öðrum MS-lyfjum.

Ársmeðferð MS-sjúklings með Tysabri kostar fjórar og hálfa milljón króna en önnur interferon lyf kosta á bilinu 2 til 3,1 milljón króna. Þeir sem bezt þekkja til telja ekki raunhæft að bera krónuverð lyfjanna eitt saman, heldur verði að líta til virkni lyfjanna. Þannig heldur Tysabri MS í skefjum hjá 7 til 8 af hverjum 10 sjúklingum á sama tíma og t.d. Copaxone, sem kostar á ári röskar 3 milljónir nýtist í bezta falli 3-4 sjúklingum af hverjum 10. Auk mun meira viðnáms hafa Tysabri-notendur lýst því hvernig lífsgæði þeirra hafi gjörbreytzt, hreyfigeta þeirra aukizt og þeir jafnvel getað lagt frá sér hækjur eða önnur hjálpartæki.

Þegar svarað er spurningunni um það hvort kostnaður valdi því, að lyfið sé ekki meira notað en raun ber vitni, þá er vísað til reynsluleysis af lyfinu, hættunnar á heilabólgu, reglna um öryggi og klínískra leiðbeininga, sem gildi um lyfjagöfina.

Er það ekki markmið að sjúklingar fái aðgang að besta mögulega lyfi? er lokaspurning Steinunnar V. Óskarsdóttur. Svarið er: “Markmiðið er að sjúklingar fái aðgang að bestu og hagkvæmustu meðferð...” en bent á fyrra svar um hættuna á PML, að lyfið sé dýrara en önnur lyf og loks staðhæft að “Tysabri (er) ekki alltaf besta lyfið fyrir alla MS-sjúklinga.”

-hh

Svar heilbrigðisráðherra ásamt spurningum Steinunnar V. Óskarsdóttur
http://www.althingi.is/altext/138/s/0156.html  

Frétt RÚV – Útvarps
http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item310478/