Þar sem erfitt hefur reynst að þróa ný lyf við stöðugri versnun MS (SVMS e. PPMS, sjá nánar hér) en þörf fyrir meðferð verið mikil, hafa vísindamenn verið að prófa lyf fyrir þessa gerð MS, sem notuð eru við öðrum sjúkdómum. Slíkt ferli tekur mun skemmri tíma heldur en það tekur að þróa nýtt lyf frá grunni.

Það hefur vakið athygli vísindamanna, sem eru að rannsaka SVMS, að þó lyf virðist virka vel í tilraunum á rannsóknastofum þá hafa þau ekki komið vel út þegar þau eru reynd á fólki. 

Vísindamenn við háskólann í Connecticut í Bandaríkjunum (Department of Neuroscience at UConn Health) ákváðu að kanna ástæðu þessa.

 

Þeir tóku blóðprufur úr þremur einstaklingum með SVMS á aldrinum 45-62 ára og til samanburðar úr tveimur heilbrigðum mökum þeirra og einu systkini á svipuðum aldri. Úrtakið var því ekki stórt. Meðaltími frá greiningu var 7,6 ár (4, 5 og 14 ár) og miðgildi fötlunar mæld á EDSS-skala var 5,3 (3,5; 5; 7,5).

Á tilraunastofunni voru blóðfrumurnar „endurforritaðar“ í sérstakar stofnfrumur (iPS-frumur*) sem aðeins finnast í heila (e. neuroprogenitor stem cells). Þessar heilastofnfrumur eru sérhæfðar til að endurskapa nýja heila- og taugavefi, þar á meðal fágriplufrumur (e. oligodendrocytes), frumur sem mynda mýelín, efnið sem myndar slíður utan um taugaþræði (taugasíma) og ræður hraða og virkni taugaboða en brotnar niður hjá einstaklingum með MS. Heilastofnfrumurnar verja einnig heilavefi gegn skemmdum.

 

Ferill í rannsóknum með iPS frumur (Mynd: Vísindavefurinn)

 

Rannsóknin gekk út á það að kanna hvort heilastofnfrumur einstaklinga með SVMS hefðu sömu hæfileika til að verja heilann gegn skemmdum og hjá heilbrigðum einstaklingum.

 

Tilraun á músum

Vísindamennirnir byrjuðu á því að reyna að græða stofnfrumur í heilavefi músa með taugaskemmdir, áþekkum þeim taugaskemmdum sem verða hjá fólki með SVMS. Ígræddar stofnfrumur úr heilbrigðu fólki byrjuðu strax að gera við skemmd svæði í heila tilraunadýranna á meðan stofnfrumur einstaklinga með SVMS sýndu engin viðbrögð.

 

Tilraun í ræktunarskálum

Þetta þótti einkar athyglisvert og því ákváðu vísindamennirnir að kanna hverju þetta sætti með því að rækta þessar stofnfrumur (iPS-frumur*) í ræktunarskálum á svo kölluðu ætihlaupi, eftir öllum kúnstarinnar reglum. Til að gera langa sögu stutta þá var niðurstaðan sú að frumur sem heilbrigðum stofnfrumum var blandað saman við, þroskuðust í stórar og sterklegar fágriplufrumur en ekkert gerðist þegar frumum var blandað saman við stofnfrumur úr einstaklingum með SVMS.

 

Tilraun með lyfjum

Þessu næst könnuðu vísindamennirnir áhrif lyfja, sem gætu gagnast við SVMS, á nýræktaðar fágriplufrumur. Í ljós kom að lyfin hjálpuðu fágriplufrumunum vel til að þroskast með stofnfrumum úr heilbrigðum einstaklingum.

Lyfin hjálpuðu hins vegar ekki upp á þroska fágriplufrumnanna með stofnfrumum úr einstaklingum með SVMS. Það vakti þó athygli að frumurnar brugðust misjafnlega við lyfjunum, þ.e. nokkur lyfjanna virtust hvetja stofnfrumur sumra einstaklinga með SVMS til dáða en ekki annarra. Með öðrum orðum þá voru viðbrögð stofnfrumnanna við lyfjunum mismunandi á milli einstaklinga.

 

Óvæntar niðurstöður

Niðurstöðurnar benda til þess að orsök SVMS sé persónubundin, þ.e. að líffræðileg gerð hvers einstaklings með SVMS ákvarðar hvernig sjúkdómur hans mun þróast og hvernig hann bregst við lyfjameðferðum. Það þýðir að sum lyf sem talin hafa verið gagnslaus geta gagnast einhverjum en ekki öllum. Áhrifaríkasta meðferð við SVMS gæti því verið einstaklingsmiðuð lyfjameðferð.

Annað sem vísindamennirnir drógu ályktun af er að stofnfrumumeðferð með eigin stofnfrumum, sem mikið er verið að rannsaka og framkvæma í vísindaskyni þessi árin, muni líklega ekki koma einstaklingum með SVMS að (öllu leyti) að gagni til lækninga á sjúkdómnum.

 

Áfram skal rannsakað

Áframhaldandi rannsóknir eru fyrirhugaðar. Meðal þess sem á að rannsaka eru áhrif ýmissa lyfja á einstaklinginn sjálfan, þ.e. gera einstaklingsmiðaðar rannsóknir, en ekki eins og venjan er, að kanna áhrif lyfs á hóp fólks með sama skilgreinda sjúkdóminn.

 

Smásjármynd af stofnfrumu (Mynd: Vísindavefurinn) 

Smásjármynd af stofnfrumu

 

*iPS-frumur eru stofnfrumur sem búnar hafa verið til í tilraunaglasi með því að taka þroskaðar frumur úr vef einstaklings og meðhöndla þær með ákveðnum stjórnprótínum þannig að þær öðlist aftur eiginleika stofnfruma fósturvísa: Þær geta endurnýjast sífellt með frumuskiptingu sem og þroskast yfir í allar frumutegundir líkamans með viðeigandi örvun. Heimild hér.

 

 

Heimildir:

Fréttatilkynning frá University of Connecticut hér

Grein í Experimental Neurology, volume 288, febrúar 2017, s. 114-121, hér 

Vísindavefurinn: Hvað eru stofnfrumur og hvert er hlutverk þeirra? Þuríður Þorbjarnardóttir líffræðingur, hér

 

 

Myndir:

Vísindavefurinn hér (Research Defence Society. Sótt 27. 02. 2008) - fullorðinsstofnfruma úr beinmerg

Vísindavefurinn hér (Anat. Cell Biol. 44: 245-255- skýringarmynd

Vísindavefurinn hér smásjármynd af stofnfrumu 

 

 

Bergþóra Bergsdottir