Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Taugalæknarnir Haukur Hjaltason og Ólafur Árni Sveinsson á taugadeild Landspítala hafa tekið saman upplýsingar fyrir MS sjúklinga vegna Covid-19 bólusetningar og heimilað birtingu á miðlum MS-félagsins. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir enda hafa margir leitað til félagsins undanfarið eftir slíkum upplýsingum.
Reykjavík 15.01.21
Upplýsingar til MS sjúklinga vegna Covid-19 bólusetningar
Miðað við núverandi þekkingu er það almenn ráðlegging að sjúklingar með MS, hvort sem þeir eru á fyrirbyggjandi meðferð eða ekki, þiggi bólusetningu við Covid-19. Tímasetning bólusetningar hjá sjúklingum á fyrirbyggjandi meðferð með Copaxon, Avonex, Betaferon eða Rebif (eða samheitalyfjum) en einnig Tysabri, Gilenya, Tecfidera og Aubagio á að geta átt sér stað óháð meðferðinni við MS.
Frá gjöf Mavenclad ættu að líða að minnsta kosti 3 mánuðir að Covid-19 bólusetningu.
Fyrir sjúklinga sem eru á meðferð með rituximab (Mabthera, Truxima, Blitzima, Rixathon) eða ocrelizumab (Ocrevus) eru ráðleggingar aðeins óvissari. Meðferð með þessum lyfjum getur minnkað mótefnasvarið sem fæst af Covid-19 bólusetningu. Líklega er best að láta a.m.k. 3 mánuði líða frá meðferð þar til bólusett er (sænskar ráðleggingar). Aðrar ráðleggingar (frá Noregi og Bretlandi) ganga út á að sjúklingar á þessari meðferð þiggi bólusetningu þegar kallið kemur og a.m.k. 1-2 vikur hafa liðið frá gjöf þessara lyfja. Hér þarf að taka tillit til mikilvægis þess að halda sjúkdómsvirkni MS niðri með lyfjunum en jafnframt að tryggja vörn við Covid-19. Út frá bólusetningarsjónarmiði er líklega betra að láta lengri tíma en styttri líða frá gjöf lyfja að bólusetningu. Eftir bólusetningu ættu að líða að minnsta kosti 4 vikur að næstu lyfjameðferð.
Vísbendingar eru uppi um að háskammtasterameðferð geti gert Covid-19 sýkingar verri. Aðhalds skal því gætt, hvað þá meðferð varðar, nú um stundir.
Haukur Hjaltason og Ólafur Árni Sveinsson
Taugalæknar á taugadeild Landspítala.
Þessar upplýsingar ættu að svara spurningum margra um sína stöðu vegna bólusetningar við COVID-19. Ef fólk er í vafa eða þarf frekari upplýsingar er að sjálfsögðu í boði nú sem fyrr fyrir MS sjúklinga að hafa samband við lækna og hjúkrunarfræðinga á taugadeildinni, sjá nánar hér.
Bendum einnig á uppfærðar ráðleggingar alþjóðasamtaka MS-félaga um COVID-19 á heimsvísu fyrir fólk með MS, sem við birtum í gær, nánar hér.
BÓ