Í síðustu viku tilkynntu Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) að stofnunin hefði ákveðið að segja upp rammasamningi við sjúkraþjálfara, sem kveður á um greiðsluþátttöku ríkisins í kostnaði einstaklinga vegna sjúkraþjálfunar, gerði heilbrigðisráðherra ekki athugasemd við uppsögnina.

Ástæða SÍ fyrir boðaðri uppsögn var að fyrirsjáanlegt væri að kostnaður vegna sjúkraþjálfunar færi fram úr fjárlögum ríkisins 2018.

 

Áskorun MS-félagsins

Í framhaldi af þessum tíðindum sendi MS-félagið áskorun til heilbrigðisráðherra sl. föstudag þar sem skorað var á ráðherra að hafna þessari fyrirætlan SÍ, þar sem lykilatriði fyrir bætta færni og lífsgæði einstaklinga með MS væri að fá sértæka sjúkraþjálfun við hæfi, óháð fjárhag.

Í áskoruninni var tekið fram að aukið aðgengi að sjúkraþjálfun væri til þess fallið að auka virkni og bæta heilsu einstaklinga með MS, sem drægi úr kostnaði og álagi á heilbrigðiskerfið til lengri tíma litið. MS-félagið áréttaði því mikilvægi þess að rammasamningurinn héldi áfram gildi sínu þar sem samningurinn hefði aukið verulega aðgengi fólks að nauðsynlegri þjálfun og endurhæfingu.

 

Uppsögn samningsins frestað

Sama dag og áskorun MS-félagsins var send heilbrigðisráðherra var tilkynnt að SÍ hefði ákveðið að fresta uppsögn samningsins við sjúkraþjálfara, að beiðni Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, þar til velferðarráðuneytið hefði tekið afstöðu til tillagna um nauðsynlegar aðhaldsaðgerðir.

 

Þessu ber að fagna en MS-félagið mun að sjálfsögðu fylgjast áfram með gangi mála.

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi