Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
Það er óhætt að segja að norðanmenn tóku vel við sér þegar þeir fengu fundarboð frá MS-félaginu um fræðslufundi sem halda skyldi á Akureyri 10. og 11. október sl.
Fyrri fundurinn var fyrir umönnunaraðila MS-fólks, þ.e. hjúkrunarfólk, sjúkraliða, sjúkraþjálfara og ófaglærða og seinni fundurinn var fyrir MS-fólk og aðstandendur þeirra.
Höfðu ýmsir á orði að stjórnmálaflokkar mættu þakka fyrir ef þeir næðu þessari mætingu á sína fundi. Hátt í 60 manns mættu á fyrri fundinn og hátt í 80 á þann seinni.
Frá MS-félaginu var þrenningin; Berglind, Bergþóra og Sigurbjörg auk Margrétar félagsráðgjafa.
Félagið hefur ekki áður haldið fræðslufundi fyrir umönnunaraðila MS-fólks en það var augljóst á mætingunni að áhuginn var mikill. Berglind og Bergþóra héldu fræðsluerindi um MS-félagið, sjúkdóminn, einkenni og meðferðir og Sigurbjörg stýrði fundinum af mikilli röggsemi og fékk fundarmenn í léttar leikfimisæfingar á milli erinda. Í lokin voru fyrirspurnir og umræður og var auðheyrt að umönnunaraðilar bera hag skjólstæðinga sinna fyrir brjósti. Umræður sköpuðust m.a. um möguleika á dagsetri fyrir MS-fólk af Norðurlandi, í líkingu við MS-Setrið, í samstarfi við aðra sjúklingahópa.
Fundurinn fyrir MS-fólk og aðstandendur var með svipuðu sniði nema hvað heldur dýpra var kafað í lyfjameðferðir auk þess sem Margrét, félagsfræðingur, hélt erindi um stuðning fjölskyldunnar við aðlögun að sjúkdómnum. Auglýst hafði verið að Jónína, MS-hjúkrunarfræðingur á Landspítala, yrði með erindi um MS-lyf og meðferðir en því miður forfallaðist hún á seinustu stundu. Hún hafði þó gefið fyrirlesara góðar upplýsingar um hvað væri nýjast í lyfjamálum. Á þessum fundi eins og á þeim fyrri voru fyrirspurnir og umræður í lok fundarins. Það sem helst brennur á fólki er að ekki er alltaf aðgangur að taugalækni, hvorki í síma né á stofu, sem getur verið mjög bagalegt. Umræður voru líka um möguleika á dagsetri og var samþykkt að Akureyrarhópurinn tæki við boltanum og skoðaði hvort og hvaða möguleikar væru í boði.
Svona fundir eru ekki haldnir án þess að margir hjálpist að. Það ber sérstaklega að þakka fjórmenningunum; Jóni, sem í áraraðir hefur haldið utan um hópinn fyrir norðan, Hauki Dór, Jóa og Vilborgu, sem voru óþreytandi við allan undirbúning enda "klikkaði" ekkert. Kærar þakkir fyrir allan undirbúning og frábærar móttökur.
Kærar þakkir einnig til allra þeirra sem mættu.
Í myndasögum má sjá myndir frá fundunum. Tommi var aðalmyndasmiður.
Hér má sjá glærurnar af fundinum.
BB