Vegna athugasemda um að verktakagreiðslur lífeyrisþega og öryrkja gætu skert bætur almannatrygginga meira en sambærileg upphæð almennra launa var málið kannað og kom í ljós að svo á ekki að vera. Þess þarf hins vegar að gæta að framtal viðkomandi sé rétt skráð. Lesið leiðbeiningar um málið hér fyrir neðan.

Lögfræðingur Tryggingastofnunar ríkisins hefur tekið saman leiðbeiningar um útfyllingu skattframtalsins. Þær eru gerðar til þess að koma í veg fyrir misrétti í þessum efnum.

Núna styttist óðfluga í skil á skattframtölum. Fyrir þá sem fá greiðslur frá almannatryggingum er sérlega mikilvægt að hyggja að sérreglum, sem gilda um þá sem fá verktakagreiðslur. Um skráningu verktakagreiðslna gilda sérstakar reglur.

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins og Tryggingastofnunar héldu fund í liðinni viku, þar sem  m.a. var rætt um athugasemdir sem borist höfðu ÖBÍ um “að verktakagreiðslur lífeyrisþega færist inn í kerfi TR sem aðrar tekjur og hafi því meira skerðingaráhrif á tekjutengdar bætur en almenn laun hafa,” eins og segir í bréfi frá ÖBÍ.

Hér fyrir neðan er niðurstaða Sólveigar Hjaltadóttur, lögfræðings TR, sem kannaði málið hjá RSK. Sólveig tók saman eftirfarandi:

                                                 LEIÐBEININGAR

GERÐ SKATTFRAMTALS MEÐ VERKTAKAGREIÐSLUM

SÓLVEIG HJALTADÓTTIR, lögfræðingur TR segir að vegna verktakagreiðslna hjá lífeyrisþegum þurfi að hafa eftirfarandi í huga við gerð skattaframtalsins í ár:

 Verktakagreiðslur eru ekki forskráðar á framtal, þar sem gert er ráð fyrir að launþegi geri rekstrarskýrslu sem er eyðublað 4.10 eða 4.11. og færi nettó niðurstöðu á tekjublaðið í reit 24.

Þegar niðurstaðan er færð í þennan reit ætti að vera tryggt að tekjurnar séu inni í stofni sem er til útreiknings tekna og þar af leiðandi komið inní útreikning frítekjumarks við útreikning lífeyrisgreiðslna.

 Skattstofur á landinu bjóða ráðgjöf og aðstoð við gerð skattframtals eins og þið eflaust þekkið, mæli með því að benda þeim sem eru með verktakagreiðslur á það.

TR sendir ekki lengur út launamiða til lífeyrisþega og mun kynna það og þá um leið bendum við á meðferð verktakagreiðslna þar sem þær eru ekki forskráðar á framtal, en allar aðrar greiðslur frá okkur eru það.

SKATTFRAMTALIÐ: Skattstofurnar aðstoða
Skattstofur
á landinu bjóða ráðgjöf og aðstoð við gerð skattframtals. Þeir sem eru í einhverjum vafa um framtalsgerðina og hvernig slík greiðsla er færð eru hvattir til að leita sér aðstoðar þar.