Í gær tók gildi reglugerð, sem Kristján Möller samgönguráðherra hefur sett um réttindi og vernd fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega í flugi.

Með reglugerðinni er innleidd reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins sem fjallar um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega sem fara um flugvelli og í flug flugrekenda með útgefið flugrekstrarleyfi innan evrópska efnahagssvæðisins. Nýja reglugerðin snertir að sjálfsagða hreyfihamlaða MS sjúklinga. Hún tók gildi í fyrradag, 26. júlí síðastliðinn.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja vernd og aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga sem ferðast í farþegaflugi innan evrópska efnahags­svæðisins. Reglugerðinni er ætlað að sporna gegn mismunun gagnvart umræddum einstaklingum og tryggja að þeir fái aðstoð bæði á ferð sinni um flugvelli og um borð í flugvélum.

MS vefurinn ræddi í gær við eiginmann MS sjúklings, sem var á leið til Spánar á laugardag sér til heilsubótar.

Hann ók henni út á Keflavíkurflugvöll og þóttist heppinn að fá stæði fyrir fatlaða við eina af dyrum flugstöðvarinnar. Þá lýsti hann fyrirhöfninni við að koma farþeganum ásamt farangri í hjólastól í “mílulanga” röð vegna innritunar og langa bið þar.

“Mér blöskraði, að eiginkona mín þyrfti að sitja í óþægilegum hjólastól í biðröð með ungu fjölskyldufólki með ærslafull smábörn með sér, sem ekki flýtti fyrir og stytti eki biðina.

Þótt konan reyndi að aftra mér frá því að kanna hvort ég mætti ekki aka henni fram fyrir að innritunarborðinu, þá lét ég slag standa og gerði það samt.

“Svörin” voru fyrst eitt stórt spurningarmerki á innritunarstarfsmanninum,  hún ráðfærði sig við kollega sinn og svo kom svarið: “Við erum nú ekkert vanar því að hleypa svona (!) fólki fram fyrir! Og þar við sat og biðin hélt áfram.”

Viðmælandi okkar sagði jafnframt:

“Innritunarkonan sem afgreiddi frúna var öllu manneskjulegri og áttaði sig t.d. á því að ferðaskrifstofan, sem seldi okkur miðann hafði gleymt að panta hjólastól handa konu minni við komuna til Spánar þrátt fyrir að hann hefði verið pantaður snemma árs – og við síðan rækilega minnt á pöntunina nokkrum dögum fyrir brottför.”

Viðmælandi MS vefjarins lagði áherzlu á að fatlaðir og hreyfihamlaðir gættu þess vandlega að kanna fyrir flug hvort ekki væri búið að tryggja að hjólastóll væri tilbúinn við komuna til áfangastaðar. Það væri ekki of seint þótt mistökin uppgötvuðust ekki fyrr en á flugvellinum. 

Í Morgunblaðsgrein Kristjáns Möller, samgönguráðherra, kemur fram, að aðstoðin sé fólgin m.a. í eftirfarandi efnum:

“Aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga felst m.a. í að gera þeim kleift að:

  •        fara í gegnum innritun og öryggisleit á flugvelli;
  •         komast um borð í loftfar;
  •         koma farangri fyrir um borð í loftfari;
  •         ná tengiflugi á flugvelli;
  •         komast úr loftfari í gegnum landamæraeftirlit;
  •         fara í gegnum tollskoðun á komustað; og
  •         endurheimta farangur á komustað.

Frekari aðstoð felst til að mynda í aðstoð við meðhöndlun og frágang hjálpartækja og stoðtækja, auk miðlun nauðsynlegra upplýsinga.”

Hér er tengill í frétt Samgönguráðuneytisins um nýju reglugerðina, sem birtist þar 23. júlí s.l.undir fyrirsögninni: “Nýjar reglur um aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða sem ferðast með flugi.”

Einnig birtist í vor, þ. 29.5.2008,:frétt á síðu samgönguráðuneytis undir fyrirsögninni: Reglugerð um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega í flugi

Morgunblaðið birti frétt um réttarbótina og jafnframt grein eftir Kristján Möller, samgönguráðherra um málið á laugardaginn 26.7. 2008. -h