Á MS-vefnum er að finna samsafn vefslóða með fjölbreyttum styrktar- og teygjuæfingum, slökunaræfingum, æfingum fyrir andlitsvöðva, tal-/raddæfingum og æfingum til að efla hugræna færni. Þær má gera hvar sem er og hvenær sem er. Sjá vefsíðuna hér.

 

Allir ættu að finna æfingar við sitt hæfi, hvort sem viðkomandi er með fulla hreyfigetu eða ekki.

Fyrir fólk sem hefur þurft að hægja á sér eða er með skerta hreyfigetu, eru teygju- og styrktaræfingar algjör nauðsyn. Þær auka vellíðan og tefja framgang sjúkdómsins.

 

Styrktar- og teygjuæfingar

Á vefsíðunni er að finna fjölmargar æfingar og teygjur sem sjúkraþjálfar og iðjuþjálfar á Reykjalundi hafa sett saman og taka á flestum vöðvum líkamans.  Einnig er þar að finna æfingar með TheraBand, teyjunni sem mikið eru notaðar við sjúkraþjálfun. Þær kosta lítið (fást t.d. í íþróttaverslunum og á líkamsræktarstöðvum) og gera alveg ótrúlega mikið gagn.

Á vefsíðunni eru líka slóðir á myndbönd sem embætti landlæknis hefur látið gera og leiðbeina um rétta framkvæmd styrk- og teygjuæfinga fyrir helstu vöðvahópa líkamans.

Teygjuhlé fyrir börn og unglinga er tölvuforrit sem minnir fólk á að taka sér reglulega hlé frá tölvuvinnu eða annarri kyrrsetu og teygja úr sér. Þrátt fyrir heiti forritsins eru æfingarnar ekki síður fyrir fullorðna. Um er að ræða hreyfimyndir sem, ásamt skýringartexta, sýna hvernig gera á hverja teygju. Hvert hlé – teygjuhlé – tekur aðeins um 1-2 mínútur, allt eftir því hversu margar teygjur eru valdar. Forritið byggir á vinnuvistfræði og nýtist sem forvörn gegn álagsmeiðslum í stoðkerfi ásamt því að vera með æfingar fyrir augu og augnbotna sem verða oft útundan í líkamsræktinni.

Þá má finna þar góðar teygjuæfingar sem Vinnuvernd mælir með og ekki síst slóðir á bæklinga með grindarbotnsæfingum fyrir konur og karla sem lyfjafyrirtækið Vistor gefur út.

Einnig má ná í æfingar fyrir andlitsvöðva og tal- og raddæfingar, sem notaðar eru við þjálfun í Setrinu.

Æfingarnar eru flestar á pdf-formati sem hægt er að prenta út.

 

Slökun og íhugun

Á vefsíðunni er að finna slóðir á YouTube-myndbönd sem veita hugarró og slökun með slökunaræfingum Eydísar og slökunartónlist Friðriks Karlssonar en einnig slóðir á ýmsar hugleiðslu- og núvitundaræfingar.

Á headspace.com hægt að fá ókeypis aðgang að hugleiðsluæfingum á ensku en Headspace-æfingarnar er líka hægt að fá sem app.

 

Hugarleikfimi

Allt það sem reynir á rökræna hugsun, örvar heilann. Dæmi um slíkt eru hvers kyns þrautir (krossgátur, sodoku, minnisleikir, spil og tölvuleikir) og nýjar áskoranir fyrir hugann (þ.e. ný verkefni). Félagsleg samskipti eru einnig mjög mikilvæg sem og öll hreyfing og hollt mataræði.

 

Og þá er bara að byrja - vefsíðan góða bíður eftir þér hér :-)

 

 Bergþóra Bergsdóttir, fræðslufulltrúi 

 

Frekari fróðleikur: