28.08.2009
Næstkomandi miðvikudag, 2. september, hefjast enn á ný Yoga-tímarnir eftir sumarleyfi. Leiðbeinandi er sem fyrr Birgir Jónsson, Ananda Yogi, en alls eru í boði 4 tímar á viku. Núna eru liðin um 7 ár frá því MS-félagið bauð fyrst upp á Yoga-námskeiðin og er óhætt að fullyrða að meiri þrautseigja hafi einkennt Yoga-endurhæfingarnámskeiðin en nokkurt annað námskeið í sögu félagsins.
Fyrsti Yogatíminn eftir sumarfrí verður miðvikudaginn 2. september kl. 16:15 í MS-húsinu. Kennt verður 4 sinnum í viku: mánud. Kl. 16:15, þriðjud. Kl. 19:30, miðv. Kl. 16:15 og laugard. Kl. 12:00. (Stundataflan gæti breyzt).
Birgir Jónsson, Ananda Yogakennari MS-félagsins, mun fara hægt af stað og verja góðum tíma í að kenna djúpöndun og styrktaræfingar. Þetta er því gott tækifæri til að byrja að stunda Yoga sér til heilsubótar.
Það segir sína sögu, að Yoga-námskeiðin hafi verið haldin í þessi sjö ár, en ekki er síðri sá vitnisburður sem endurspeglast í þeirri staðreynd að af þeim u.þ.b. 10 manna hópi, sem stundar yogað hafa flestir í hópnum verið með frá upphafi.
Í áranna rás hefur komið í ljós, að það hefur reynzt sumum erfitt skref að hefja Yoga-endurhæfingu, en þegar MS-greindir hafa komizt upp á lagið hafa Yoga-tímarnir orðið ómissandi þáttur í heilsueflingu þátttakendanna.
Eitt af því sem geinir Ananda Yoga frá öðru Yoga er að mikil áherzla er lögð á styrktaræfingar og ekki síður slökun, sem gera námskeið Birgis Jónssonar sérstaklega hentug fyrir MS-greinda einstaklinga.
Nánari upplýsingar fást hjá Ingdísi Líndal á skrifstofu MS-félagsins, sími 568 8620, og hjá Birgi Jónssyni í síma 895 9454.
Áhugasamir eru hvattir til að mæta miðvikudaginn 2. september kl. 16:15 – þó ekki væri nema til að kynnast því sem í boði er.
hh