Karfan er tóm.
- Sjúkdómurinn
- Lifað með MS
- Þjónusta
- Útgáfa
- Um félagið
- Styrkja starfið
- Vefverslun
Karfan er tóm.
80-100 manns munu njóta góðs af nýja lyfinu
Tímamót urðu í sögu meðferðar MS sjúkdómsins á Íslandi þ. 16. janúar 2008, þegar tveir einstaklingar, tvítugur maður og “eldri kvinna úr Flóanum” voru fyrstir MS-sjúklinga sprautaðir með nýja lyfinu Tysabri, sem talsvert hefur verið fjallað um á vef MS-félagsins, í MeginStoð, tímariti félagsins og Morgunblaðinu, nú síðast þ. 17. janúar á bls. 4 og baksíðu blaðsins. Fyrstur fékk lyfið Ólafur Örn Karlsson og síðan Kristín Þorbjörg Ólafsdóttir.
“Þetta var sögulegt augnablik,” sagði Sverrir Bergmann, taugafræðingur, í samtali við MS-vefinn, en hann er einn helzti sérfræðingur Íslendinga í MS-sjúkdómnum og annast fjölda MS-sjúklinga. Hann bindur talsverðar vonir við Tysabri og er bjartsýnn um framhaldið, þar sem rannsóknum hefur fleygt fram á síðustu árum, einkum í Evrópu. Tysabri hefur verið í þróun frá árinu 1997 og nú 10 árum síðar hafa fyrstu tveir íslenzku sjúklingarnir verið sprautaðir með nýja lyfinu.
Sverrir Bergmann, taugafræðingur, sagði í samtali við MS-vefinn, að meginkostirnir við Tysabri væru, að svörunin við lyfinu væri mun meiri (7,8 af hverjum 10 einstaklingum) og að auki væri lyfið mildara og svörunin mildari en um leið mun öflugri.
Í kringum næstu áramót er von á tvenns konar nýjum enn öflugri lyfjum, annars vegar sprautulyfi og hins vegar í töfluformi, sem gæti skipt sköpum fyrir sjúklingana.
Á Íslandi eru um 330 einstaklingar, sem hafa verið greindir með “multiple sclerosis”. Þar af eru 128 sjúklingar í lyfja- og hæfingarmeðferð. Þetta eru einstaklingar sem fá svokölluð “köst” og eru einkum notuð Interferonlyf og Copaxone til að draga úr þessum köstum. Köstin eru jafnfjölbreytileg og sjúklingarnir eru, sem fá þau.
Gert er ráð fyrir að allt að 80-100 sjúklingar fái Tysabri, þegar yfir lýkur. Rannsóknir erlendis hafa sýnt, að tveir af hverjum 10 sjúklingum þola ekki Tysabri vegna aukaverkana. Þannig fækkar í hópnum auk þess sem sumir telja sig ekki hafa þörf fyrir lyf eða vilja halda áfram í þeirri lyfjameðferð, sem þegar er hafin. Þá er stór hópur sjúklinga, sem fær það miklar aukaverkanir af lyfjunum að þeir kjósa fremur að taka engin lyf.
En hverjir fá Tysabri og hvenær? Fram hefur komið, að það mun taka nokkra mánuði að afgreiða alla þá sem eiga að fá Tysabri. Til dæmis er gert ráð fyrir, að allmargir, sem eru á lyfjum muni óska eftir að fá að skipta yfir í Tysabri. Sverrir sagði, að við val á sjúklingum fyrir Tysabri meðferð verði horft til þeirra, sem fái tíð köst og einnig þeirra sem séu farnir að sýna stöðuga afturför. Þá hafa verið sett mörk við 65 ára aldurinn, en Sverrir taldi ekki að það yrði algild regla. Þá hefur jafnframt verið ákveðið að gefa ófrískum konum ekki Tysabri lyfið. Meginreglan verður sú, að þeir sem taka núna fyrirbyggjandi lyf og kjósa að skipta fá að gera það. Núna taka 128 einstaklingar fyrirbyggjandi lyf og gizkaði Sverrir Bergmann á, að um það bil helmingurinn af þeim myndi skipta yfir í nýja lyfið eða um 64 einstaklingar. Þá bætist við þennan hóp nýgreindir sjúklingar, sem væru að fara í fyrsta skipti í fyrirbyggjandi meðferð.
Til að byrja með verður gerð krafa um að fólk fái meðferð á taugadeild Landspítalans í Fossvogi, þar sem hver og einn fer í rannsókn áður, ónæmiskerfið kannað o.fl. Haukur Hjaltason, sérfræðingur á taugadeild LSH, heldur utan um meðferðina þar. Taugasérfræðingar með MS-sjúklinga munu gera skrá um sjúklinga sína og leggja mat á þörf þeirra fyrir nýja lyfið. Þá kemur til kasta Hauks, samstarfsmanna hans og MS-lækna um val á sjúklingum og þá er aðalviðmiðið hversu alvarlegur sjúkdómurinn er orðinn.
Jákvæð svörun við Tysabri er 7,8 af 10, eins og áður sagði, en til samanburðar er svörun við Interferonlyfjum hins vegar 3,5 og 4,5 við Copaxone að hámarki. Þannig er jákvæður árangur af notkun Tysabri nær tvöfalt meiri en af Copaxone, sem hefur hingað til hefur verið í mestum metum.
MS er einn af dularfyllstu sjúkdómum sögunnar og þrátt fyrir víðtækar rannsóknir og sífellt betri hemjandi lyf hefur enn ekki tekizt að finna lækningalyf við MS. Þau lyf, sem MS-sjúklingum eru gefin, þar á meðal Tysabri, draga úr einkennum sjúklinga og gera lyfin MS-sjúklingum með alls kyns einkenni lífið bærilegra.
Þótt mikið sé vitað um MS-sjúkdóminn og öflugt samstarf rannsóknarstofnana og erfðafræðirannsóknir fari fram t.d. á vegum Erfðagreiningar (deCode Genetics), er enn beðið eftir lyfi sem læknar sjúkdóminn. - h