SEM-samtökin, MND-félagið, MS-félagið og Sjálfsbjörg hafa hrundið af stað verkefninu AÐGENGI SKIPTIR MÁLI. Með því er skorað á alla, sérstaklega þá sem tengdir eru fólki í hjólastólum eða þeim sem eiga við hreyfihömlun að stríða, að versla frekar þar sem allir eru velkomnir. Þar sem fólk í hjólastólum kemst um, komast allir um - hreyfihamlaðir, blindir og fólk með barnavagna, svo einhverjir séu nefndir.

Opnuð hefur verið fésbókarsíðan „Aðgengi skiptir máli“ þar sem skorað er á fólk að líka við síðuna og að það reyni markvisst að versla frekar við þá sem bjóða ALLA velkomna með góðu aðgengi.

Áætlað er að um 7.000 Íslendingar noti hjólastól til að komast um. Þá eru ótaldir þeir sem eiga við annarskonar hreyfihömlun að stríða. Ef miðað er við að um 16 manns fjölskyldu og vina standi að hverjum hjólastólanotenda skiptir gott aðgengi máli fyrir um þriðjung þjóðarinnar.

Samtakamáttur getur haft gríðarleg áhrif og ef allir taka sig saman um að hvetja verslanir, fyrirtæki og stofnanir til að huga að aðgengismálum sínum fyrir alla geta hlutirnir aðeins breyst til batnaðar.

 

 

Við skulum hafa í huga að það er samfélagið sem setur höftin, ekki hinir hreyfihömluðu. Fólk í hjólastól er ekki einangrað en það er hinsvegar búið að einangra það frá samfélaginu með því að tryggja ekki aðgengi að því sem flestum þykir sjálfsagt.

 

Aðgengismál eru MS-félaginu mjög hugleikin og hefur félagið nú þegar hrundið af stað verkefni í tengslum við Alþjóðadag MS 28. maí n.k. þar sem áherslan er lögð á aðgengi og framtíðarsýn um „hinn fullkomna dag án hafta“, sjá nánar hér.

 

 

MS-FÉLAGIÐ  HVETUR ALLA til að fara inn á fésbókarsíðuna „Aðgengi skiptir máli“, líka við síðuna og deila henni til ættingja og vina.

 

 

 

Bergþóra Bergsdóttir