Rúmlega 55% MS-sjúklinga reyndust vera með æðaþrengsli í heila að því er fram kemur í nýrri rannsókn á 500 sjúklingum, sem tóku þátt í rannsókn sem gerð var við Háskólann í Buffalo. Frá þessu var greint í fréttum á dögunum. Sérfræðingur ensku MS-samtakanna kvað niðurstöðurnar vera mjög athyglisverðar, en lagði áherzlu á að þær væru ekki sönnun þess, að æðaþrengslin yllu MS. Frekari rannsóknir á blóðstreymiskenningunni þyrftu að fara fram.

Rétt er að árétta, að skoðanir taugasérfræðinga á kenningunni eru mjög skiptar og henni tekið með meiri efa í Bandaríkjunum en mörgum öðrum löndum. Sverrir Bergmann, sérfræðingur MS-félagsins, lýsti talsverðum efasemdum sínum í samtali við MS-vefinn og tók undir með mörgum erlendum sérfræðingum, að miklu frekari rannsókna þyrfti við áður en hann segði kost eða löst á í niðurstöðum Buffalo-háskóla í Bandaríkjunum.

Rannsóknin sýndi að þennan æðagalla væri að finna í helmingi fleiri MS-sjúklingum en heilbrigðum einstaklingum eða í 56,4% MS-sjúklinga á móti sams konar kvilla í 22,4% heilbrigðra einstaklinga í viðmiðunarhópi bandarísku vísindamannanna. Þótt haft hafi verið eftir einum MS-sérfræðingi, að þetta slaka blóðstreymi á milli hjarta og heila kunni að vera orsakavaldur MS segja flestir sérfræðingar, að alltof snemmt sé að staðhæfa af eða frá um þessa kenningu, þott spennandi sé.

Ráðizt var í rannsóknina í Buffalo-háskóla í framhaldi af kenningu ítalska vísindamannsins dr. Paolo Zamboni, sem MS-vefurinn greindi frá þ. 16. desember á liðnu ári.

Zamboni heldur því fram, að 90% MS-sjúklinga fái sjúkdóminn vegna þröngra æða í hálsi og heila. Hann segir, að takmörkun blóðflæðis komi í veg fyrir, að blóð streymi nógu hratt úr heilanum og skaði heilann með hættulega mikilli uppsöfnun járns, sem leiði til MS. Hann hefur þegar gert aðgerðir á MS-sjúklingum og víkkað æðar nokkurra sjúklinga, m.a. eiginkonu sinnar samkvæmt frétt BBC í gær.

Þá greindi Sky-sjónvarpsstöðin frá því, að brezkur MS-sjúklingur, Martin Jones, hefði farið í æðavíkkunaraðgerð í Póllandi. Um er að ræða karlmann, sem hefur verið með MS í 13 ár. Hann lýsti talsverðum bata eftir aðgerðina í viðtali við sjónvarpsstöðina Sky sem flutti tvær fréttir um málið.

Buffalo-rannsóknarteymið notaði m.a. við rannsókn sína Doppler hátíðni til þess að skanna sjúklinga í mismunandi líkamsstellingum til þess að kanna blóðstreymi. Þá fóru allir 500 MS-sjúklingarnir, börn og fullorðnir, í heilasegulómskoðun í þeim tilgangi að mæla járnforða á tilteknum svæðum heilans. Til viðmiðunar voru 161 heilbrigður einstaklingur. Lokaniðurstöðurnar í heild sinni verða kynntar á ráðstefnu um taugafræðileg efni í Bandaríkjunum í apríl í vor.

Robert Zivadinov, sem stjórnaði rannsókninni í Buffalo háskólanum kvaðst vera “hóflega bjartsýnn og spenntur” í ljósi þessarar fyrstu bráðabirgðaniðurstöðu. “Þær sýna , að þröngar æðar í og við höfuðkúpuna, séu að minnsta kosti mikilvægar varðandi tengsl við sjúkdóminn “multiple sclerosis”. “Við verðum fróðari, þegar niðurstöður segulómskoðunar og aðrar rannsóknarniðurstöður verða tilbúnar,” sagði Zivadinov.

Dr. Doug Brown, yfirmaður líffræðirannsókna brezku MS-samtakanna sagði í viðtali við BBC: “Þessar niðurstöður eru spennandi, en það er mikilvægt að hafa í huga, að þótt fólk með MS sé með krónísk einkenni þrengsla er snerta heila og mænu í stökum rannsóknum, þá táknar það ekki að þetta fyrirbæri valdi MS né að aðgerð vegna þess hafi áhrif á MS.”

Vísindamenn sem rætt hefur verið við eru sammála um, að æðaþrengslakenningin sé spennandi viðfangsefni, en nú verði sérfræðingar í MS að leggjast á eitt um að rannsaka kenninguna til hlítar. Kenningin sé byltingarkennd, rannsókn Buffalo-hópsins séu spennandi, frekari rannsóknir sé nauðsynlegar og langt sé í land áður en raunhæft sé að segja til um hvort kenningin standist ítrustu rannsóknir.

Skoðið fréttir um málið sem birtust á SKY-sjónvarpsstöðinni:

UM NÝJU KENNINGUNA – ÁLIT BREZKU MS-SAMTAKANNA

BRETI FÓR Í AÐGERÐ Í PÓLLANDI – LÍÐUR MUN BETUR

- hh