Í kvöldfréttum Sjónvarpsins í fyrrakvöld var greint frá því að óvissa ríkti um framhald Tysabri lyfjameðferðar á Íslandi. Formaður MS félagsins lýsti áhyggjum sínum yfir þróun mála í RÚV í gærkvöld.

Óheftur aðgangur að Tysabri (innan eðlilegra öryggismarka), bezta viðnámslyfinu, sem MS sjúklingum stendur til boða um þessar mundir, er sjálfsögð krafa, sagði Sigurbjörg Ármannsdóttir, formaður MS félagsins á Íslandi í viðtali í fréttum  sjónvarpsins í gærkvöld 31. ágúst. 

Óskoraður lagaréttur
Hún sagði þetta m.a. í samhengi við þá framtíð, sem blasir við ungu fólki, sem greinzt hefur verið með MS og ætti allt lífið framundan. Fram kom, að upp á síðkastið hafi fleira ungt fólk greinzt með MS en um langa hríð og er Anna Sigríður Pálsdóttir, læknanemi, sem Sjónvarpið ræddi við daginn áður, dæmi um slíkan einstakling, sem bíður milli vonar og ótta eftir því hvort hún fái lyfjameðferð með Tysabri á LSH.

Sigurbjörg Ármannsdóttir, form. MS félagsinsSigurbjörg lagði jafnframt áherzlu á óbifanlegan lagalegan rétt allra MS sjúklinga til að fá beztu lyfjameðferð og aðhlynningu, sem völ væri á á hverjum tíma. Gagnvart hinum ólæknandi MS sjúkdómi væri Tysabri bezti kosturinn, eins og Sverrir Bergmann, einn virtasti taugafræðingur Íslendinga og sérlegur taugalæknir MS félagsins, segir í nýlegu samtali við MS vefinn.

Af ummælum Björns Zoega, starfandi forstjóra Landspítala Háskólasjúkrahúss, í sjónvarpsfréttum á laugardagskvöldið, mátti skilja, að þess væri jafnvel að vænta að færri fengju Tysabri lyfjameðferð en fyrirhugað var og ekki væri “búið að ákveða hvert framhaldið yrði hérlendis”. Formaður MS félagsins varpaði m.a. fram þeirri spurningu hvers þeir mættu vænta, sem væru þegar komnir á lyfið.

Tilfinningaþrungin reiði
Í laugardagsfréttinni var rætt við Önnu Sigríði Pálsdóttur, læknanema, sem greindist nýlega með MS, og sagði hún á áhrifaríkan hátt frá stöðu sinni og áhyggjum yfir því að fá ekki Tysabrilyfið strax. Ummæli hennar voru þrungin tilfinningu og reiði vegna þeirrar óvissu, sem ríkti í lífi hennar og um framhald læknanáms síns, sem hún á aðeins eitt ár eftir af.

Ef vandamálið væri húsnæðisskortur kvaðst hún reiðubúin að setjast á gólfið í Borgarspítalanum og fá lyfið þar!  “Ég væri til í að sitja á gólfinu ef það þýddi að ég fengi lyfið,” sagði Anna Sigríður og sagði hægaganginn “út í hött” og “skelfilegan”.

Þá lagði Sigurbjörg áherzlu á að “ekki (væri) á óvissu MS sjúklinga bætandi” með ummælum, eins og heyrðust frá Landspítalanum, sem hljómuðu eins og hægja ætti á eða jafnvel að hætta við að taka við fleiri MS sjúklingum í Tysabrimeðferð, en þeim 50 sjúklingum sem rætt hefur verið um að muni fá lyfið fyrir árslok..

Núna eru um 60 manns á biðlista um að komast í Tysabri lyfjameðferð (eftir því sem næst verður komizt), en hingað til hafa aðeins 24 MS sjúklingar komizt að frá miðjum janúarmánuði, þ.e. síðastliðna 8 mánuði. Núna eru aðeins 4 mánuðir eftir af árinu 2008 og í viðtölum hafa sérfræðingar taugadeildar LSH og yfirmenn sjúkrahússins ávallt sagt að 50 manns ættu að fá Tysabri á þessu ári.

Það þýðir að starfsfólk taugadeildarinnar verður að hætta því sem MS sjúklingar kalla “makalausan hægagang” á Tysabri lyfjameðferðinni hingað til og tvöfalda vinnuhraðann, ef stofnunin ætlar að standa við loforð sitt um að 50 sjúklingar fái lyfið á þessu ári.

LSH getur ekki breyt
eigin grundvallarreglu
Því má raunar skjóta inn hér, að talan 50 er hrein ágizkunartala, sem var varpað fram af sérfræðingum LSH snemma árs, löngu áður en þeir höfðu fengið inn á borð til sín beiðnir taugafræðinga úti í bæ ásamt meðfylgjandi gögnum um MS sjúklinga, sem eiga tilkall til Tysabri-lyfjagjafar samkvæmt ströngum reglum og vinnuramma Tysabriverkefnisins. Grundvallarreglan um það hverjir eigi að fá Tysabri og hverjir ekki liggur ljós fyrir í yfirlýsingu Hauks Hjaltasonar, taugasérfræðings ug umsjónarmanns Tysabriverkefnisins þ. 13. marz í vor: “Þeir fá Tysabri, sem þurfa.”Skýrar verður vart að orði kveðið og ummæli Björns Zoega um óteknar ákvarðanir um hvort og hversu margir fá eða fá ekki Tysabri á næsta ári í Sjónvarpinu í fyrrakvöld falla um leið dauð.

MS-vefurinn hefur heimildir fyrir því, að sá fjöldi MS sjúklinga, sem uppfylla kröfur um aðgang að lyfjameðferðinni og eigi um leið heimtingu á “beztu hugsanlegu læknismeðferð” samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga, séu að minnsta kosti 100 manns, sé miðað við sjúkrasögur þeirra einstaklinga, sem óskað hafa eftir því að komast að og taugadeildin hefur fengið allar upplýsingar um og sjálfstæðir taugalæknar hafa upplýsingar um..

Það sem vakti ugg margra var að í frétt Ríkissjónvarpsins á laugardagskvöld sagði eitthvað á þá leið, að ekki væri búið að ákveða hvert framhaldið yrði hérlendis í ljósi tveggja PML tilvika sem greint var frá í liðnum mánuði.

Í beinu framhaldi komu ummæli Björns Zoega þess efnis, að sjá þyrfti hvernig gengi á næstunni og ekki væri búið að ákveða hversu margir kæmust að á næsta ári.

Orðrétt sagði Björn:

“Við þurfum að sjá hvernig gengur að koma sjúklingunum á þessa meðferð, við fylgjum því vel eftir og pössum vel upp á það og það er ekki búið að ákveða hversu margir verða settir á þetta á næsta ári..” 

Lyfjaeftirlit Evrópu

Skákað í skjóli
PML-aukaverkunar?
Í fréttinni sagði, að óvissa ríkti um framtíð lyfsins vegna tveggja PML tilvika sem skýrt var frá hér á vefnum fyrir röskum mánuði.. Á það ber að benda, að bæði Lyfjaeftirlit Evrópu (CHMP nefnd EMEA) og Lyfjastofnun Bandaríkjanna (FDA) sendu frá sér fréttatilkynningar 8. og 13. ágúst um áframhaldandi notkun natalizumab (Tysabri) þrátt fyrir tilvikin tvö. Jafnframt yrði fylgzt grannt með lyfjagjöfinni og tilvikin tvö könnuð sérstaklega.Lyfjastofnun BNA

Þess ber að geta að rík áherzla var lögð á hættuna af PML aukaverkuninni, þegar lyfið var sett á markað árið 2006. Öllum sjúklingum sem vildu fá lyfið og hafa verið  samþykktir sem þiggjendur lyfsins, er gerð mjög glögg grein fyrir hættunni sem fylgir því vegna hugsanlegrar PML aukaverkunar, þótt áhættan væri ekki talin meiri en 1 á móti 1000. Núna er áhættan samkvæmt reynslunni í raun aðeins 1 á móti 18000 í ljósi þess, að um 39 þúsund einstaklingar hafa fengið lyfið um heim allan, en aðeins tveir fengið PML!

Hérlendis fá t.d. allir MS sjúklingar, sem eru á Tysabri nákvæmar upplýsingar um PML, sem prentaðar eru á samanbrotinn smáblöðung á stærð við viðskiptakort beinlínis til að hafa á aðgengilegum stað í veski sínu. Og eru þá ótaldar mjög nákvæmar og ítarlegar upplýsingar og viðvaranir í löngu máli auk sérstaks fundar sjúklings og taugalæknis á LSH, þar sem löngum viðtalstíma er varið að stórum hluta í umfjöllun um PML. PML aukaverkunin er með öðrum orðum ekki nýjar fréttir fyrir MS sjúklinga.

Af þessari ástæðu eru því engar forsendur fyrir því, að LSH fari að hægja enn meira á Tysabrilyfjameðferðinni – og jafnvel hætta henni. Það er að minnsta kosti, að mati MS sjúklinga, alls ekki í verkahring starfandi forstjóra LSH að ákveða hvort tiltekið lyf er gefið eða ekki.

Raunar er svo komið, að MS sjúklingar eru orðnir þreyttir að hlusta á innihaldslausar og ómarktækar yfirlýsingar, eins konar ping-pong leik í fjölmiðlum, sem ekki leiðir til neinnar niðurstöðu.

Ef til vill er tími til kominn að fjölmiðlar ræði við yfirmann heilbrigðismála á Íslandi, Guðlaug Þór Þórðarson, heilbrigðisráðherra, um þessi mál, en hann hefur í öllum samskiptum við MS félag Íslands sýnt því vinsemd og virðingu. – h

 

 Guðlaugur Þór flytur ávarp á
Lífsgæðaráðstefnu MS félagsins í vor